Ískort 2016 – Breytingar frá fyrri útgáfu

Ískort 2016 Útgáfa

 

Ný gögn unnin af Iskort.is

Öll gögn unnin fyrir mælikvarðann 1:25.000 eða nákvæmar.

 • Holuhraun

Útlínur Holuhrauns dregnar upp eftir Landsat 8 gerfihnattamynd

 • Jöklar

Útlínur jökla dregnar upp eftir LIDAR mælingum VSÍ og RHÍ ásamt Landsat 8 gervihnattamyndum til viðmiðunar. – Útlínur yfirfarðar frá fyrri útgáfu.

 • Gervihnattamynd

Skýjalaus gervihnattamynd unnin upp eftir Landsat 8 gervihnöttum. Gögn frá LMÍ notuð til viðmiðunar við val á skýjalausum myndum og svæðanotkunar á hverri mynd fyrir sig. Myndin síðar notuð til vinnslu frumgagna og einnig sem hluti af litaþekju.

 • Gróðurþekja

Gróðurþekja unnin upp úr Landsat 8 gervihnattamyndum. Uppfærð útgáfa frá Iskort 2015 unnin í kvarða 1:25.000.

 • Litakort

Nýtt litakort unnið upp úr nýjum gögnum. Litaval yfirfarið og breytt lítillega frá síðustu útgáfu, þó helst litur á gróðurþekju unnir úr Landsat 8 gervihnattamyndum.

 • Hæðarlíkan jökla

Hæðarlíkan Hofsjökuls yfirfarið og lagfærðir gallar. Jaðar annara hæðarlíkana unna úr LIDAR gögnum lagfærir í jöðrum og samskeytum.

 • Vatnafar

Rúmlega 500 smávötn teiknuð upp í nágrenni jökuljaðra, teiknuð upp eftir Landsat 8 gervihnattamynd og LIDAR hæðarlíkani.

 • Hæðarskygging

Ný hæðar og hallaskygging útbúin til að endurspegla betur þrívídd í landslagi. Hallaskygging endurgerð fyrir sprungur í jöklum.

 • Örnefni

Örnefnalag endurunnið með nýjum gögnum frá LMÍ. Mikil fjölgun á sýnilegum örnefnum í kvörðum 1:100.000, 1:50.000 og 1:25.000.

 • Samgöngur

Pattersson flugvöllur plön og vegir í kring teiknaðir upp. Vegnúmer á vegum útbúið með skiltum sambærilegum og Vegagerðin notar. Viðvörunar og upplýsingaskilti frá Vegagerðinni útbúin og staðsett í samræmi við skilti og staðsetingar frá Vegagerðin.
Gögn frá Skógrækt Ríkisins.

 • Náttúrulegt birki á Íslandi

Kortlagning náttúrulegs birkis á Íslandi fór fram á árunum 2010-2014. Útbreiðsla birkis var kortlögð á vettvangi og m.a. skráðar upplýsingar um hæð, þekju og aldur. Samkvæmt skilgreiningum er birki sem nær 2m hæð flokkað sem birkiskógur, en undir 2m er flokkað sem birkikjarr. Flatarmál birkis á Íslandi er 150.600 ha. Þróun og viðhald gagnagrunnsins fer fram við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá.

 • Ræktað skóglendi á Íslandi

Þekja ræktaðs skóglendis á Íslandi er uppfærð árlega með innsendum gögnum um gróðursetningar hvers árs. Þekjan inniheldur upplýsingar um framkvæmdaaðila, ár gróðursetningar, trjátegundir, auk ýmissa annarra upplýsinga. Þróun og viðhald gagnagrunnsins fer fram við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá.

 

Gögn frá Landmælingum Íslands – LMÍ IS 50V.

 • CORINE gróðurfarsgögn

Ný útgáfa af Corine gróður og yfirborðsgögn

 • LMÍ IS 50V Hæðargögn

Útgáfa 24.12.2015: Hæðarlínulagið var aðeins breytt. Það voru sett inn ný Lidargögn frá IPY (International Polar Year) af Flateyjardal, gögn frá 2011. Punktalagið er óbreytt. Útgáfa 17.06.2015 Hæðarlínulagið var aðeins breytt. Það voru sett inn ný Lidargögn frá IPY (International Polar Year) af Vatnajökli, gögn frá 2011. Hæðarpunktalagið lagfært í samræmi við ný hæðargögn á Vatnajökli. Talsvert af punktum voru teknir út, örlítið var um leiðréttingar.

 • LMÍ IS 50V Samgöngur

Útgáfa 24.12.2015: Flákalagið í samgöngulaginu er óbreytt en vegalagið breyttist þó nokkuð. Landmælingar Íslands mældu vegi í Djúpavogshreppi og þá aðallega fyrir ofan hálendislínu. Um er að ræða vegi sem sveitarfélagið var búið að flokka sem opna vegi en voru ekki til í grunni Landmælinga Íslands. Búið er að flokka vegi í Skaftárhreppi fyrir ofan hálendislínu (utan Vatnajökulsþjóðgarðs) og fengu fáeinir vegir flokkunina „lokaðir vegir“ og „takmörkuð og tímabundin notkun vegar“. Við það birtast þeir ekki lengur í útgáfulaginu. Nýjum vegum frá Vegagerðinni, m.a. nýjum Álftanesvegi og breytingum á vegstæði á Vestfjarðarvegi, var bætt við og leiðréttingar voru gerðar á öðrum vegum. Þá hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en alltaf eru einhverjar breytingar á vegnúmerum.

Útgáfa 17.06.2015: Engar breytingar voru gerðar á flákalaginu. Línulagið tók hins vegar breytingum. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lokið við sína flokkun á vegum fyrir ofan hálendislínu og fengu fáeinir vegir flokkunina „lokaðir vegir“ og „takmörkuð og tímabundin notkun vegar“ .Við það birtast þeir ekki lengur í útgáfulaginu. Húnavatnshreppur hefur einnig lokið við að meta vegi sveitarfélagsins fyrir ofan hálendislínu og fékk einn vegur flokkunina „lokaður vegur“. Klárað var að uppfæra vegi í þéttbýli með gögnum frá Samsýn ehf.

 • LMÍ IS 50V Mannvirki

Útgáfa 24.12.2015: Talsverðar breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu en flákalagið er óbreytt á milli útgáfa.

Útgáfa 17.6.2015: Breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu og í flákalaginu komu nýjar íbúafjölda upplýsingar frá Hagstofunni.

 • LMÍ IS 50V Örnefni

Útgáfa 24.12.2015: Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu, þar sem mikil og stöðug vinna fer fram við hnitsetningu. Skráning örnefna hefur aðallega farið fram á svæðum í Borgarfirði, Eyjafirði, Þingeyjarsveit, Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi en á flestum stöðum er um að ræða mikla vinnu heimamanna og staðkunnugra.  Áfram var  unnið við  breytingar á línum í fláka við ströndina á Vesturlandi, sama má segja um línur á jöklum þá var mörgum flákum á ám breytt í línur.

Útgáfa 17.06.2015: Örnefni voru skráð í Borgarfirði, Vesturbyggð, Eyjafirði, Þingeyjarsveit, Sveitarfélaginu Hornafirði, Skaftárhreppi, Rangárþingi eystra, og Flóahreppi. Skráð voru örnefni á sjó en þau komu af sjókortum LHG. Einnig var unnið í að breyta línum í fláka við ströndina.

 • LMÍ IS 50V Vatnafar

Útgáfa 24.12.2015: Vatnafarið hefur verið uppfært töluvert og allir jöklar landsins voru uppfærðir. Spot-5 gervitunglamyndir frá árunum 2011-2013 eru hafðar í bakgrunni og eru jöklarnir teiknaðir eftir þeim. Spot-5 myndirnar eru meginheimildin en jöklalínur úr CORINE verkefni og jöklalínur frá Oddi Sigurðssyni hjá Orkustofnun eru hafðar til hliðsjónar. Töluvert svæði norðan og sunnan Vatnajökuls hefur verið uppfært sem og svæðið við Þjórsárver. Punktalagið var uppfært með því að færa fossa og flúðir á rétta staði. Í tengslum við uppfærslu á vatnafarinu urðu einhverjar tilfærslur á „hjálparlínum“ í dálkinum adstodarlina í línulaginu, en lega strandlínunnar breyttist ekkert.